Evrópusambandið gefur 8,3 milljarða króna í neyðaraðstoð

Evrópusambandið ætlar að gefa 100 milljónir evra, andvirði um 8,3 milljarða íslenskra króna, í neyðaraðstoð vegna náttúruhamfaranna í Suðaustur-Asíu. Sambandið stefnir að auki á að veita um 83 milljarða króna í lán til þeirra þjóða sem verst hafa orðið úti í flóðunum, að sögn Jose Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Barroso sagði fyrr í dag að hann mundi leita til Evrópuþingsins um heimild til að veita auk þessa 350 milljónir evra, andvirði tæplega 30 milljarða króna, til langtímauppbyggingar á svæðinu.

„Ég held að Evrópuþingið sé tilbúið til að vera mjög örlátt,“ sagði Barroso en hann situr leiðtogafund í Jakarta á Indónesíu um aðstoð vegna hamfaranna.

Lán sambandsins verður með þægilegum skilmálum og það verður Þróunarbanki Evrópu sem mun halda utan um lánið, að sögn Barroso. Ummæli Barroso komu aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hafði sagt í ræðu sinni á fundinum að þær þjóðir sem hefðu heitið aðstoð vegna hamfaranna þyrftu nú að fara að standa við loforðin.

Annan hvatti þjóðir til að láta af hendi rakna 1,7 milljarð dollara, andvirði um 107 milljarða króna, sem Sameinuðu þjóðunum hefur verið heitið vegna uppbyggingar og aðstoðar á flóðasvæðunum. Þar af er rúmlega 60 milljörðum króna ætlað að renna til neyðaraðstoðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert