Lík fleiri Svía flutt heim frá hamfarasvæðum við Indlandshaf

Kistur með líkum sænskra ferðamanna sem fluttar voru til Svíþjóðar …
Kistur með líkum sænskra ferðamanna sem fluttar voru til Svíþjóðar í vikunni. Myndin er tekin á flugvellinum í Bangkok. AP

Sænsk yfirvöld bjuggust í dag til þess að senda lík tveggja sænskra ferðamanna, sem fórust í flóðbylgjum á Taílandi á annan dag jóla, til Svíþjóðar. Stjórnvöld bentu á að marga mánuði gæti tekið að fljúga heim með öll lík sænskra ferðamanna sem fórust í hamförunum.

Dauðsföll 52 Svía hafa verið staðfest og 1.903 er saknað. Það er ekki einungis hið mikla mannfall sem reynist Svíum erfitt, heldur einnig hið mikla verkefni að bera kennsl á þá sem létust og flytja lík þeirra til Svíþjóðar.

„Þetta á sér enga hliðstæðu. Við höfum ekki þróað aðferðir til þess að bregðast við, en okkur hefur tekist að koma okkur upp ákveðnu ferli hér til þess að gera þetta eins vel og af eins miklum virðuleik og hægt er,“ sagði Johan Hederstedt, sem sér um að flytja lík sænskra ferðamanna heim frá Taílandi. „Ég tel að þetta muni taka marga mánuði, ef við erum að tala um alla Svíana - og það eru margir Svíar sem verður saknað - á því leikur enginn vafi,“ bætti Hederstedt við, en hann er fyrrum yfirhershöfðingi í sænska hernum.

Finnar minnast fórnarlamba hamfaranna

Taílensku ferðamannstaðirnir sem harðast urðu fyrir barðinu á hamförunum, svo sem Phuket og Khao Lak, voru vinsælir áfangastaðir mörg þúsund Dana, Svía, Norðmanna og Finna, sem vildu flýja vetrarkuldann heimafyrir.

Finnar minntust fórnarlamba hamfaranna í dag, en þá fór fram guðsþjónusta í dómkirkjunni í Turku og var henni sjónvarpað um landið. Guðsþjónustuna sóttu Tarja Halonen, forseti Finnlands, Matti Vanhanen, forsætisráðherra og aðrir fulltrúar ríkisstjórnar og þings.

Staðfest er að 15 Finnar létu lífið í hamförunum við Indlandshaf og 177 manna er saknað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert