Páfi lýsir yfir áhyggjum vegna yngstu fórnarlambanna í Suðaustur-Asíu

Jóhannes Páll páfi lýsti yfir áhyggjum vegna yngstu fórnarlambanna í náttúruhamförunum í Suðaustur-Asíu sem og börnum sem er rænt og seld mansali í ræðu sinni á St. Péturs torginu í dag. Þúsundir manna hlýddu á páfann.

Páfinn gerði velferð barna að aðalefni ræðu sinnar sem var haldin í tilefni hátíðar sem helguð er börnum. Hátíðin á rætur sínar að rekja til ítalskrar þjóðsögu um norn sem ferðast um á kústi og gefur börnum gjafir á þessum degi.

„Á sama tíma og ég endurnýja bænir mínar fyrir smæstu fórnarlömbunum í flóðunum í Asíu, get ég ekki gleymt þeim börnum sem eru fórnarlömb hungursneyðar og sjúkdóma, styrjalda og hryðjuverka sem og börnum sem er rænt, hverfa eða eru seld fyrirlitlegu mansali,“ sagði páfinn.

Talsverðar áhyggjur eru uppi um að barnaníðingar og þeir sem stunda mansal nýti sér ástandið eftir flóðin til að ræna börnum. Í Indónesíu hafa verið settar takmarkanir við því að börn fari út landi og sérstakir verðir settir við neyðarbúðir. Þá hafa ýmis samtök um velferð barna hafa varað við því að munaðarlaus börn gætu endað í höndum aðila sem reyna að selja ungt fólk úr landi í þrældóm eða kynlífsþrælkun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert