Rætt um greiðslufrest á erlendum lánum ríkja á hamfarasvæðum í Asíu

Fólk sem lifði af hamfarirnar í Aceh héraði í Indónesíu …
Fólk sem lifði af hamfarirnar í Aceh héraði í Indónesíu fær mat í neyðarbúðum á Súmötru. AP

Þjóðir sem taka í dag þátt í alþjóðlegri ráðstefnu í Indónesíu um aðstoð á hamfarasvæðum í Asíu, þar sem jarðskjálftar og flóðbylgjur skullu á annan dag jóla, íhuga að veita fátækum ríkjum sem urðu illa úti í hamförunum greiðslufrest á lánum.

Í uppkasti að yfirlýsingu sem þjóðarleiðtogarnir á ráðstefnunni vinna að segir að tillögum um lækkun erlendra skulda hjá þeim þjóðum sem urðu illa úti í hamförunum verði vel tekið. Nauðsynlegt sé að „auka getu þjóðanna til þess að taka þátt í endurreisnar- og uppbyggingarstarfi.“

Allnokkur Evrópuríki vilja að sumum þeirra 11 ríkja sem urðu fyrir hamförunum verði veittur greiðslufrestur. Aðrir eru ekki eins hrifnir af þessum hugmyndum og segja að bein peningaaðstoð til hamfarasvæðanna sé líklegri til þess að skila árangri og ná til nauðstaddra.

Ástralar, sem tilkynntu í gær að þeir hyggist leggja fram 764 milljónir dala til hamfarasvæða í Indónesíu, ýmist sem styrki eða lán, segjast ekki hrifnir af hugmyndum um greiðslufrest. Lönd á borð við Kanada, Bretland, Frakkland og Þýskaland hafa stutt slík áform. „Það er skoðun okkar að Indónesía muni hagnast mun meira á beinum og virkum hjálparaðgerðum,“ sagði Alexander Downer, utanríkisráðherra Ástralíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert