Se og Hør innkallar upplag vegna myndar á forsíðu

Danska vikuritið Se og Hør innkallaði í dag upplag blaðsins eftir að stjórnendur verslana víða um landið neituðu að selja það, en á forsíðu blaðsins var stór mynd sem sýndi rotnandi lík á strönd á Taílandi. Í yfirlýsingu segist Henrik Qvortrop, aðalritstjóri blaðsins, harma þá ákvörðun að setja þessa mynd á forsíðuna.

„Það var ekki ætlunin að misbjóða neinum með því að nota myndina," segir Qvortrop í yfirlýsingunni og bætir við að tvö dönsk dagblöð hafi birt sömu mynd án þess að nokkur hreyfði mótmælum. Myndinni hefði verið ætlað að undirstrika þann mannlega harmleik, sem flóðbylgjurnar 26. desember ollu við Indlandshaf.

Þrjár stærstu verslunarkeðjur Danmerkur neituðu að selja blaðið og sögðu að myndin, sem sýndi á annan tug nakinna líka á eynni Khao Lak á Taílandi, fæli í sér tillitsleysi. Á forsíðunni stóð einnig orðið: Tragedien.

Sjö Danir létu lífið í náttúruhamförunum og 62 Dana er saknað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert