Svíar krefjast upplýsinga um meintar fjöldagrafir á Taílandi

Taílenskir hermenn úða sóttvarnarefni á líkkistu í Takuapa í suðurhluta …
Taílenskir hermenn úða sóttvarnarefni á líkkistu í Takuapa í suðurhluta Taílands. AP

Sendiherra Svíþjóðar á Taílandi og sendifulltrúar Hollendinga og Þjóðverja þar í landi fóru í dag formlega fram á það við utanríkisráðuneyti Taílands að það veitti upplýsingar um það hvort lík fórnarlamba flóðbylgjunnar þann 26. desember hafi verið grafin í fjöldagröfum. Óstaðfestar fréttir hafa verið um slíkt í fjölmiðlum á Taílandi og víðar.

Ríkin þrjú segja, að verði það staðfest að lík hafi verið greftruð í fjöldagröfum vilji þau fá upplýsingar um hvort lík ferðamanna hafi verið grafin þar og ef svo er, hvort um bráðabirgða- eða varanlega greftrun hafi verið að ræða.

Sumar fréttir herma að gripið hafi verið til fjöldagrafa til að greftra Taílendinga, sem þegar var búið að bera kennsl á, en aðra fréttir herma að lík hafi verið grafin þar til bráðabirgða til að koma í veg fyrir að sjúkdómar breiddust út á flóðasvæðinu.

Göran Persson, forsætisráðherra Svía, hefur sagt að Svíar hafi lagt áherslu á það við taílensk stjórnvöld, að borin verði kennsl á lík. Sagðist hann hafa verið fullvissaður um að Svíar, sem létu lífið, yrðu ekki brenndir.

Staðfest er að 52 Svíar létu lífið í hamförunum og 1903 er saknað. 60 fórust og þúsund er saknað og 7 Hollendingar fórust og um 30 er saknað.

Sænska fréttastofan TT hafði eftir Stig Edqvist, yfirmanni sænsku kennslanefndarinnar í Taílandi, að hann hefði fengið upplýsingar um að lík væru greftruð í fjöldagröfum. Sagði hann að þýskir starfsbróður sínir hefðu elt vörubíla sem ekið var frá byggingum þar sem líkum var safnað saman. Þeir hafi séð bílana aka að svæði þar sem tvær nýteknar grafir voru og tvær grafir sem mokað hafði verið ofan í. Hefði líkum verið komið fyrir í opnu gröfunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert