Unglingur hafðist við í tré í 10 daga

Götusali heggur kókoshnetu á markaði í Port Blair á Andamaneyjum.
Götusali heggur kókoshnetu á markaði í Port Blair á Andamaneyjum. AP

Sautján manns var í gær bjargað á Andamaneyjum í Indlandshafi af svæði, sem enn er að mestu undir vatni eftir að flóðbylgjan mikla reið þar yfir á annan dag jóla. Meðal þeirra var fjórtán ára gamall piltur, sem hafðist við í tré í 10 daga án þess að fá vott eða þurrt.

„Fyrstu dagana grét ég en eftir nokkra daga hættu tárin að koma. Ég hafði ekkert til að borða, ekkert vatn til að drekka og var alveg hjálparlaus," sagði pilturnn, sem heitir Murlitharan, eftir að hann kom til Port Blair á Andamaneyjum í dag.

Murlitharan var fluttur með indverskri herþyrlu frá eynni Car Nicobar í gær. Sagðist hann ekki kunna að synda, og því hefði hann hafst við í trénu í 10 daga því þorpið hans var stöðugt umflotið sjó. Björgunarmenn sögðu, að Murlitharan hefði dottið úr trénu á þriðjudag en kona á svæðinu bjargaði honum.

Foreldrar Murlitharans liggja á sjúkrahúsi á Indlandi en þangað voru þeir fluttir frá Car Nicobar fyrr í þessari viku.

Indversku björgunarmönnunum tókst að bjarga 17 manns frá svæðinu. B.S. Thakur, hershöfðingi, sem stýrir björgunaraðgerðum fyrir hönd indverska flughersins, sagði að þegar þyrla lenti á eyjunni hefðu tveir drengir gengið 16 km leið yfir afar erfitt svæði til að skýra hermönnunum frá því að fólk væri á lífi. Var þá sent eftir stærri björgunarþyrlu sem flutti fólkið á brott. Sagði Thakur, að fólkið hefði nærst á kókoshnetum og bönunum en ekki haft neitt drykkjarvatn.

Mörg þúsund manna er saknað á Andamaneyjum eftir flóðbylgjuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert