Versalir opnaðir til styrktar hjálparstarfi á flóðasvæðum

Hallir Versala í útjaðri Parísar verða opnaðar sérstaklega fyrir gesti og gangandi kvöld eitt í næstu viku og rennur aðgangseyrir til söfnunar til styrktar fórnarlömbum náttúruhamfaranna við Indlandshaf.

Að sögn stjórnenda hallarinnar verða Versalir opnir af þessu tilefni frá klukkan 19-23 að staðartíma, 18-22 að íslenskum tíma, næstkomandi miðvikudag, 12. janúar.

Starfsfólk hefur ákveðið að vinna kauplaust þennan tíma og rennur öll innkoma af opnuninni til að styrkja hjálparstarf UNICEF Frakklands á flóðasvæðunum. Gestir sem reiða af höndum fé við innganginn fá fylgd um hinar mikilfenglegu íbúðir fyrrum keisara og konunga Frakklands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert