Annan á ferð um Aceh-hérað: „Aldrei séð jafn mikla eyðileggingu“

Kofi Annan í Banda Aceh, höfuðborg Aceh héraðs, í Indónesíu …
Kofi Annan í Banda Aceh, höfuðborg Aceh héraðs, í Indónesíu í dag. AP

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna (SÞ) ferðaðist í dag um Súmötru á Indónesíu, sem varð illa úti í jarðskjálftum og flóðbylgjum á annan dag jóla. Annan sagðist aldrei hafa séð slíka eyðileggingu blasa við. „Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei séð jafn mikla eyðileggingu blasa við -- mílu eftir mílu og maður veltir fyrir sér hvar fólkið sé, hvað varð um það?“ sagði Annan við blaðamenn skömmu eftir að hann flaug yfir þau svæði sem urðu verst úti. Annan sagðist hafa heimsótt bæinn Meulaboh á vesturströnd Súmötru sem jafnaðist nær alveg við jörðu í hamförunum í síðustu viku.

„Þar sáum við fólk reyna að taka til og halda áfram að lifa lífi sínu og auðvitað er þetta gott dæmi um þá seigl sem býr í manninum. Og ég tel að með tímanum, fáist stuðningur ríkisstjórnarinnar og alþjóðasamfélagsins, muni fólkið ná sér á strik á ný og geta haldið áfram að lifa lífinu.“ „En, það þarf mikla hjálp,“ undirstrikaði Annan.

Meira en 113.000 manns fórust í hamförunum í Indónesíu en þær hófust eftir að mikill jarðsjálfti varð skammt undan strönd landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert