Annan og Powell halda til Sri Lanka

Annan og Alwi Shihad, ráðherra velferðarmála í Indónesíu, við komuna …
Annan og Alwi Shihad, ráðherra velferðarmála í Indónesíu, við komuna til Banda Aceh í dag. Aceh hérað varð afar illa úti í hamförunum. AP

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, SÞ, ferðaðist í dag um svæði sem urðu illa úti af völdum jarðskjálfta og flóðbylgna í Asíu á annan dag jóla. Á alþjóðlegri ráðstefnu um hjálparstarfið, sem fram fór í Jakarta í Indónesíu í gær, sagði Annan að þegar væri þörf á milljarð dala í reiðufé til hjálparstarfsins.

Ráðstefnunni lauk síðdegis í gær en í dag flaug Annan til Aceh héraðs í Indónesíu, sem varð verst úti í hamförunum. Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ferðaðist um svæðið fyrir tveimur dögum. Annan og Powell eru svo báðir væntanlegir til Sri Lanka, en þar mun þeir, sitt í hvoru lagi, meta skemmdir af völdum hamfaranna þar.

200 bandarískir hermenn hafa verið sendir til Sri Lanka til þess að hleypa auknum krafti í hjálparstarfið þar.

Deilur eru hafnar milli stjórnvalda á Sri Lanka og uppreisnarmanna þar um skiptingu hjálpargagna. Hafa þær dregið úr vonum manna um að hamfarirnar geti orðið til þess að stuðla að auknum sáttum á milli deiluaðila. Uppreisnarmenn, Tamíl-tígrar, segja að stjórn landsins hafi sent afar lítið af hjálpargögnum til norð-austurhluta landsins, þar sem þeir ráða ríkjum, en yfirvöld segja hins vegar að muni meiri aðstoð hafi borist þessum svæðum en öðrum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið við yfirstjórn hjálparaðgerða á hamfarasvæðunum við Indlandshaf, að því er fram kom á ráðstefnunni í Jakarta í gær. Meira en 165.000 manns létu lífið af völdum hamfaranna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert