Colin Powell heimsækir Srí Lanka

Powell heilsar einum af íbúum Srí Lanka.
Powell heilsar einum af íbúum Srí Lanka. AP

Colin Powell, fráfarandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsótti flóðasvæðin á Srí Lanka í dag. Þetta er þriðja landið á svæðinu sem Powell heimsækir og segist hann búast við því að Bandaríkjamenn sendi fleiri þyrlur á svæðið til neyðaraðstoðar en var efins um að fjárframlög Bandaríkjamanna myndu hækka í bráð.

Talið er að um 30 þúsund manns hafi látist á Srí Lanka og um 800 þúsund misst heimili sín vegna hamfaranna 26. desember sl. Powell flaug yfir suðurströnd landsins í þyrlu.

„Ég fékk tækifæri til að upplifa eyðilegginguna frá fyrstu hendi. Einungis með því að sjá hörmungarnar er hægt að skilja hvernig þetta hefur verið þennan hræðilega dag. En ég er hrifinn af því að sjá fólk hreinsa, hjálpa nágrönnum sínum, hefjast handa við að hreinsa verslanir og heimili sín,“ sagði Powell.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert