Samtökin „Læknar án landamæra“ biðjast undan frekari fjárframlögum

Hjálparsamtök lækna, „Læknar án landamæra“ (MSF), hafa hvatt fólk til að hætta að senda samtökunum peninga vegna hjálparstarfs samtanna á hamfarasvæðunum við Indlandshaf því þegar hafi borist nógu mikið fé til að kosta starfið.

Samtökin hófu á þriðjudag að biðjast undan fjárframlögum og segjast hafa nóg til að fjármagna hjálparstarf sitt á Sri Lanka og Indónesíu.

Í staðinn beina samtökin því til fólks sem vill veita fjármunum til starfsemi MSF að eyrnarmerkja þau hinum almenna neyðarhjálparsjóði. Úr honum sé notað m.a. fjármagn til að gera samtökunum kleift að sinna hjálparstarfi sínu sem nú sé haldið úti í yfir 70 löndum um heim allan, m.a. í hinu stríðshrjáða héraði Darfur í Súdan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert