Tala látinna í Indónesíu fer yfir 100 þúsund

Víða í héraðinu Aceh í Indónesíu stendur ekki steinn yfir …
Víða í héraðinu Aceh í Indónesíu stendur ekki steinn yfir steini eftir flóðbylgjuna. ap

Tala látinna í Indónesíu, eftir náttúruhamfarirnar þann 26. desember, er nú komin yfir 100 þúsund en sjö þúsund lík hafa fundist á síðustu dögum í Aceh-héraði á Súmötru. Staðfest tala látinna í löndunum við Indlandshaf nálgast nú 150 þúsund.

Ahmad Yani Basuki, talsmaður hers Indónesíu, sagði að tala látinna hefði hækkað mikið síðustu daga vegna þess að fjöldi sjálfboðaliða tæki nú þátt í leit að líkum, einkum í nágrenni við strandbæinn Meulaboh, sem lagðist nánast í rúst. Er nú staðfest að 101.318 manns létu lífið í Indónesíu.

Fyrr í dag tilkynnti félagsmálaráðuneyti Indónesíu, að tala látinna hefði hækkað um nærri 20 þúsund og væri orðin 113.306 en dró það fljótlega til baka og sagði töluna vera 98.480. Hin talan hefði verið mistök og stafaði af truflunum á fjarskiptasambandi við Súmötru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert