Uppreisnarmenn í Aceh í Indónesíu sagðir trufla hjálparstarf

Íbúar í Meulaboh í Aceh reyna að ná hjóli úr …
Íbúar í Meulaboh í Aceh reyna að ná hjóli úr leðjusvaði. Aceh varð illa úti í hamförunum á annan dag jóla.l AP

Indónesískir hermenn í Aceh héraði í Indónesíu, sem varð illa úti af völdum jarðskjálfta og flóða á annan dag jóla, segja að uppreisnarmenn úr röðum aðskilnaðarsinna ráðist á þá meðan þeir sinna hjálparstörfum og komi þannig í veg fyrir að fólk fái nauðsynlega aðstoð. Vopnahlé í átökum sem lengi hafa staðið yfir í héraðinu hafði verið lýst yfir, en það virðist nú í hættu. Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur varað stjórnvöld í Indónesíu við að hergögn sem henni eru fengin vegna hjálparstarfsins megi ekki nota gegn uppreisnarmönnum.

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna (SÞ) fer um Aceh í dag. Svæðið, sem er á norðurodda eyjunnar Súmötru, varð verst úti í hamförunum 26. desember.

Blaðamaður BBC í Banda Aceh, höfuðborg Aceh héraðs, segir indónesíska hermenn hafa kvartað yfir því að uppreisnarmenn hafi ráðist á þá, jafnvel þegar þeir reyna að hjálpa íbúum héraðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert