Lík grafin upp úr fjöldagröfum á Taílandi

Taílenskir hermenn taka sér hvíld frá störfum í Bang Muang …
Taílenskir hermenn taka sér hvíld frá störfum í Bang Muang bráðabirgðagrafreitnum. AP

Verið er að grafa upp hundruð líka í suðurhluta Taílands svo hægt sé að taka ný DNA-sýni. Er þetta gert vegna þess að grunur leikur á að lík af vestrænum ferðamönnum hafi verið grafin í fjöldagröfum án þess að borin hafi verið á þau kennsl eða talið að um væri að ræða Taílendinga. Staðfest hefur verið að 5300 manns létu lífið á Taílandi í náttúruhamförunum 26. desember og þar af var um helmingurinn vestrænir ferðamenn. 3700 manns er enn saknað.

Líkin, sem nú er verið að grafa upp, voru upphaflega grafin í fjöldagröfum í Bang Muang norður af Khao Lak vegna þess að ekki var nóg af kæligámum. Nú hafa fleiri slíkir gámar verið fluttir á svæðið og verða líkin sett í þá eftir að ný DNA-sýni hafa verið tekin, mót tekið af tönnum og örflaga sett í hvert lík til að hægt sé að þekkja það aftur.

Taílenskir embættismenn hafa fullyrt að aðeins lík Taílendinga hafi verið grafin í Bang Muang en grunur leikur á að þar sé einnig að finna lík af Vesturlandabúum. Blaðið Bankok Post skýrði frá því í dag að ættingjar Vesturlandabúa, sem saknað er, gruni að ástvinir þeirra hafi verið grafnir ásamt Taílendingum og öðrum Asíubúum í bráðabirgðagrafreitnum.

Nokkur lík, sem telið er að geti verið af Vesturlandabúum, hafa þegar verið sett í kæligáma við Yan Yao musterið, þar sem komið hefur verið upp bráðabirgðalíkhúsi. Réttarmeinafræðingar frá Norðurlöndunum, Þýskalandi, Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Hollandi, hafa verið að störfum í Yan Yao til að reyna að bera kennsl á líkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert