Tamílar ósáttir við Annan

Nokkur hundruð manns stóðu fyrir mótmælum fyrir utan skrifstofu Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) í Jaffna í norðurhluta Sri Lanka í gær eftir að Kofi Annan, framkvæmdastjóri SÞ, hafði orðið við ósk stjórnvalda í Colombo um að heimsækja ekki svæði í norðurhluta landsins, þar sem skæruliðar tamíla ráða ríkjum, sem urðu illa úti í náttúruhamförunum á öðrum degi jóla.

Tamíl-tígrarnir, vopnaðar sveitir tamíla, hafa undanfarin tuttugu ár barist fyrir sjálfstæðu ríki tamíla í Norður-Sri Lanka og hafa meira en 30.000 manns beðið bana í borgarastyrjöldinni í landinu.

Undanfarin þrjú ár hafa staðið yfir friðarumleitanir á Sri Lanka; ýmislegt bendir hins vegar til að spenna í samskiptum stjórnarinnar í Colombo og tamíla hafi magnast í kjölfar hamfaranna við Indlandshaf 26. desember sl. sem hafa kostað meira en 155.000 lífið, þar af meira en 30.000 á Sri Lanka. Kvarta skæruliðar tamíla undan því að stjórnvöld hugsi ekki nægilega mikið um það að koma neyðaraðstoð til fólks á þeirra yfirráðasvæði sem á um sárt að binda. Þessu mótmæla stjórnvöld í Colombo, segja að svæði tamíla hafi fengið sinn skerf af neyðaraðstoðinni og vel það.

Annan sagði á fréttamannafundi í Colombo í gær að hann vonaði að mótmælin í Jaffna yrðu ekki til að skaða samskipti fulltrúa SÞ og leiðtoga skæruliða tamíla. "Ég vonast til að geta komið aftur og heimsótt öll svæði í landinu, ekki aðeins í tengslum við náttúruhörmungarnar, heldur líka til að minna á mikilvægi friðarumleitana. SÞ hafa engan áhuga á að taka afstöðu til deilenda hér," sagði hann.

Tamíl-tígrarnir höfðu boðið Annan að koma og heimsækja norðurhluta Sri Lanka og sjá aðstæður á hamfarasvæðum þar. Embættismenn í Colombo lögðust hins vegar gegn því á þeirri forsendu að stjórnvöld í landinu myndu ekki geta tryggt öryggi hans þar.

Colombo. AP.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert