Sameinuðu þjóðirnar vilja sjá boðuð framlög og söfnunarfé

Skipakostur sjómanna á Phuketeyju varð illa úti í hamförunum.
Skipakostur sjómanna á Phuketeyju varð illa úti í hamförunum. mbl.is/Sverrir

Framlög opinberra aðila og annað söfnunarfé vegna hjálparstarfs á hamfarasvæðunum við Indlandshaf - jafnvirði milljarða dollara - verður að skila sér hið skjótasta svo hjálpa megi fórnarlömbum hamfaranna. Það verður boðskapur fulltrúa Sameinuðu þjóðanna (SÞ) á ráðstefnu með fulltrúum styrktarþjóða í Genf.

SÞ hefur kallað til fundarins til að ræða áætlun skipulag og flutning hjálpargagna til hamfarasvæðanna. Vill stofnun fá þar fullvissu fyrir því að boðuð framlög og styrktarfé að jafnvirði allt að sex milljarðar dollara skili sér í aðstoð við fórnarlömb flóðbylgjunnar á annan dag jóla.

Opinber yfirvöld og almenningur um heim allan hefur brugðist vel við beiðni um aðstoð vegna hamfaranna. Stöðugt berast fregnir af auknum framlögum. Þannig juku kanadísk stjórnvöld styrk sinn á sunnudag úr 66 milljónum dollara í 350 milljónir.

SÞ er áfram um að ríki heims og styrktaraðilar geri nákvæma grein fyrir því hvenær þau ætla að efna heit sín og greiða styrktarféð. Vegna umfangsins og kröftugra viðbragða hafa SÞ ráðið endurskoðunarfyrirtækið PriceWaterhouseCoopers til að hafa upp á styrktaraðilum og eftirlit með greiðslunum og notkun fjárins. Jafnframt að rannsaka allar ásakanir um sviksemi, bruðl eða misnotkun þess.

Af hálfu SÞ þykir hjálparstarf samtakanna gagnsætt en í fersku minni þeirra er þó gagnrýni á samtökin vegna meintrar misnotkunar á verkefninu sem varðar olíusölu frá Írak á tímum viðskiptabannsins. Tekjur af henni átti að nota til matvælakaupa en brögð þykja hafa verið í tafli í þeim efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert