Persson segir utanríkisráðuneytið hafa brugðist í upplýsingagjöf

Göran Persson, forsætisráðherra Svía, segir að utanríkisráðuneyti landsins beri ábyrgð á því hvað seint sænsk stjórnvöld brugðust við náttúruhamförunum í Asíu á öðrum degi jóla. Fréttastofan TT hefur eftir Persson, að þótt ráðuneytið hafi vitað að margir Svíar voru staddir á hamfarasvæðunum hafi hvorti hann né Laila Freivalds, utanríkisráðherra, verið látin vita um umfang málsins.

Sænska ríkisstjórnin átti fund með Karli Gústaf, Svíakonungi, í sænsku konungshöllinni í dag, en konungur hefur skýrt opinberlega frá því að honum hafi ekki tekist að fá upplýsingar frá sænskum stjórnvöldum um stöðu mála fyrr en 1½ sólarhring eftir náttúruhamfarirnar. Persson sagði við blaðamenn eftir fundinn, að komið hafi í ljós að símbréf, sem send voru til utanríkisráðuneytisins, hafi ekki verið send áfram til ráðherranna.

Persson sagði, að það væri óviðunandi hve langur tími leið þar til konungur fékk umbeðnar upplýsingar og það væri heldur ekki viðunandi hve hann sjálfur fékk upplýsingar seint.

Persson segist ekki líta á viðtal, sem Dagens Nyheter átti við konunginn, sem gagnrýni á hann sjálfan eða ríkisstjórnina. Sagði hann að konungur hefði á fundinum í dag veitt ríkisstjórninni þakkir fyrir það starf, sem hún hefði unnið vegna hamfaranna og tekið sérstaklega fram að ummæli í viðtalinu beri ekki að skoða sem gagnrýni á ríkisstjórnina eða önnur stjórnvöld.

Persson segir, að hann hafi þegar 26. desember gert sér grein fyrir því að náttúruhamfarirnar voru miklar en hann hafi ekki vitað það fyrr en morguninn eftir, að Svíar hafi látið þar lífið og slasast. Þessar upplýsingar hafi borist til utanríkisráðuneytisins í símbréfum daginn áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert