Viðvörunarkerfi vegna flóðbylgna í notkun á Indlandshafi á næsta ári

Indverskur maður við rústir húss síns í Tamil Nadu en …
Indverskur maður við rústir húss síns í Tamil Nadu en húsið eyðilagðist í hamförunum á annan dag jóla. AP

Kerfi sem á að vara við hugsanlegri hættu af völdum flóðbylgna í Indlandshafi verður hugsanlega tilbúið til notkunar á næsta ári, að því er Koichiro Matsuura, yfirmaður Unesco hefur tilkynnt og BBC greinir frá. Segir Matsuura hugsanlegt að viðvörunarkerfið, sem kostar um 30 milljónir dala, verði tekið í notkun í júní árið 2006 og hægt verði að koma svipuðu kerfi á um heim allan ári síðar.

Hefði viðvörunarkerfi verið til staðar á annan dag jóla, þegar jarðskjálftar og flóðbylgjur skullu á í Indlandshafi, hefði verið hægt að koma í veg fyrir mörg þúsund dauðsföll í Indlandi og á Sri Lanka.

Kerfi sem varar við flóðbylgjum er þegar fyrir hendi á Kyrrahafssvæðinu. Jarðskjálftafræðingar fengu fregnir af jarðskjálftanum undan strönd Indónesíu, sem olli flóðbylgjunum, næstum um leið og hann varð, en engin leið var fær til þess að koma nauðsynlegum upplýsingum um ástandið til fólks á svæðinu.

Orð Matsuura féllu í dag á ráðstefnu á Máritíus um málefni sem smá eyríki þurfa að glíma við. Sagði hann meðal annars að ekki væri mikið að greiða 30 milljónir dala, eða tæpa 2 milljarða íslenskra króna, fyrir viðvörunarkerfið. „Það er ekkert í samanburði við það sem gerðist,“ sagði hann. „Við lærðum afar dýra lexíu,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert