9 konur segjast mæður drengs sem er munaðarlaus eftir hamfarir á Sri Lanka

Frá búðum fyrir munaðarlaus börn í Batapola á Sri Lanka, …
Frá búðum fyrir munaðarlaus börn í Batapola á Sri Lanka, sem settar voru upp eftir hamfarirnar þar í desember. AP

Níu konur á Sri Lanka eru sagðar gera tilkall til ungabarns sem bjargað var þegar flóðbylgjur skullu á ströndum landsins á annan dag jóla. Að því er fram kemur í frétt BBC var barnið, sem er drengur, þakið marblettum og eðju þegar komið var með hann á sjúkrahús í Kalmunai í Ampara umdæmi, að sögn læknis.

Lögregla var kölluð til eftir að sumar kvennanna hótuðu að beita ofbeldi fengju þær drenginn ekki í hendur.

Allnokkur svipuð mál hafa komið upp í þeim ríkjum sem urðu illa úti í hamförunum. Talið er að um 40% þeirra sem létust á Sri Lanka af völdum hamfaranna, hafi verið börn. Um 31.000 manns týndu lífi í landinu.

Um 1.000 börn á Sri Lanka eru munaðarlaus eftir flóðbylgjurnar, samkvæmt upplýsingum frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, SÞ.

Ein konan sem kvaðst móðir litla drengins hótaði að drepa lækni, en önnur sagðist mundu fremja sjálfsvíg fengi hún barnið ekki í hendur.

Sjúkrahúsið hyggst fara með málið fyrir dómstóla. „Ef dómstóllinn fer fram á að við tökum DNA sýni, munum við gera það,“ sagði læknir á sjúkrahúsinu.

Hins vegar er ekki ljóst hver mun greiða fyrir rannsóknirnar, en þær kosta mikið fé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert