Norrænir forsætisráðherrar í sameiginlegri heimsókn til Taílands

Forsætisráðherra Noregs, Svíþjóðar og Finnlands munu ferðast saman til Taílands á sunnudag til að þakka leiðtogum þar í landi og taílensku þjóðinni fyrir aðstoð sem veitt var þúsundum Norðurlandabúa sem voru í landinu þegar náttúruhamfarirnar urðu 26. desember.

Þeir Kjell Magne Bondevik, Göran Persson og Matti Vanhanen munu eiga fundi með taílenskum og alþjóðlegum réttarmeinafræðingum, sem reyna nú að bera kennsl á lík þeirra sem fórust í flóðbylgjunni. Yfir 2000 Finna, Svía og Norðmanna er enn saknað á svæðinu.

Forsætisráðherrarnir þrír eru væntanlegir til Bankok á sunnudag og munu þeir síðan fara til ferðamannasvæðanna við Khao Lak og Pukhet í suðurhluta landsins.

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra, Danmerkur, segist ætla að fara til Taílands í vor til að vera viðstaddur minningarathöfn um 8 Dana sem fórust í flóðbylgjunni. 44 til viðbótar er saknað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert