Persson: Taílendingar útskýri hvers vegna ekki var varað við flóðbylgju

Persson heimsækir líkhús sem komið hefur verið upp til bráðabirgða …
Persson heimsækir líkhús sem komið hefur verið upp til bráðabirgða í Takuapa í suðurhluta Taílands á ferð sinni um svæðið í dag. AP

Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði í dag að Taílendingar ættu að útskýra hvers vegna taílenskir jarðskjálftafræðingar vöruðu engan við því að miklar flóðbylgjur stefndu að landinu á annan dag jóla. Sagði hann að þetta yrðu Taílendingar að útskýra, vildu þeir að ferðamenn sneru á ný til landsins.

Persson sagði einnig nauðsynlegt að við uppbyggingu hótela og annarra ferðamannastaða eftir hamfarirnar, yrði vandað betur til verks en áður hefði verið gert, svo byggingarnar gætu staðist hugsanlegar náttúruhamfarir í framtíðinni. Persson er staddur í Taílandi ásamt öðrum norrænum forsætisráðherrum.

Staðfest er að meira en 5.300 manns létust í hamförunum í Taílandi. Um helmingur þeirra voru erlendir ferðamenn sem dvöldu í ferðamannabæjum á borð við Khao Lak.

Dauðsföll 52 Svía af völdum hamfaranna í Indlandshafi hafa verið staðfest en 893 Svía er saknað eftir þær. Persson sagðist í samtali við AFP-fréttastofuna óttast að hinir látnu væru sennilega „nálægt því að vera 1.000 talsins.“

„Ég ... lét í ljós með beinum hætti við taílensk yfirvöld að við vildum að gerði yrði rannsókn á því hvernig staðið var að viðvörunum fyrir hörmungarnar,“ sem hófust með gríðarlega öflugum jarðskjálfta undan vesturströnd Súmötru í Indónesíu, sagði Persson við blaðamenn þegar hann ferðaðist um hamfarasvæðið þar í dag.

„Jarðskjálftinn varð langt á undan flóðbylgjunni. Flóðbylgjan lenti á ströndunum og varð mörg þúsund manns að bana. Hvers vegna voru ekki gefnar út viðvaranir þegar vitað var af flóðbylgjunni?“

Taílensk stjórnvöld tilkynntu í desember s.l. að þau myndu láta rannsaka hvers vegna almenningur var ekki varaður við flóðbylgjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert