Yfirmenn hersins og SÞ kannast ekki við hryðjuverkaógnanir í Aceh

Hermálayfirvöld í Indónesíu og háttsettir yfirmenn Sameinuðu þjóðanna í Aceh-héraði segjast ekki hafa neinar upplýsingar um ógnanir gagnvart hjálparstarfsmönnum á svæðinu. Utanríkisráðuneyti Dana sendi í morgun frá sér tilkynningu um að hryðjuverkaógn í Aceh-héraði væri yfirvofandi.

„Ég hef ekki fengið neinar upplýsingar um hótanir,“ sagði Joel Boutroue, yfirmaður hjálparstarfs Sameinuðu þjóðanna í viðtali við fjölmiðla. Hann sagðist hafa haldið öryggisfund fyrr í dag og hættustig á svæðinu væri óbreytt.

„Þetta er umhverfi þar sem maður verður að fara um með gát,“ sagði hann og bætti við að hann gæfi öllum hjálparstarfsmönnum þau ráð að hreyfa sig gætilega.

Ahmad Yani, ofursti í her Indónesíu, sagði að yfirmenn vissu ekki á hvaða upplýsingum viðvörun Dana væri byggð á.

„Ég hef ekki heyrt um þessa hryðjuverkaárás og ég veit ekki frá hvaða upplýsingum þessi viðvörun í Aceh kemur,“ sagði Yani.

Ummæli þeirra tveggja féllu stuttu eftir að utanríkisráðuneyti Dana gaf út viðvörun sína.

„Fjölmörg lönd fengu þessa viðvörun og við í Danmörku ákváðum að heimildir okkar og innihald viðvörunarinnar væru fullnægjandi til að senda hana út,“ sagði Niels-Erik Andersen í utanríkisráðuneyti Dana.

„Lönd meta slíkar aðvaranir á ólíkan hátt,“ bætti hann við og neitaði að nefna hvaða önnur lönd hefðu fengið viðvörunina. „Ég veit um önnur lönd sem taka þessu alvarlega,“ sagði Andersen og neitaði að tjá sig frekar um aðdraganda aðvörunarinnar eða með hvaða hætti hjálparstarfsmönnum á svæðinu væri hótað. Hann sagði hins vegar að Danir á svæðinu ættu að leita skjóls og hafa aðstæðurnar í huga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert