Fækkað á lista yfir Svía sem saknað er eftir hamfarir í Asíu

Sænsk lögregla fækkaði í dag fólki á lista yfir einstaklinga sem saknað er eftir miklar náttúruhamfarir í Indlandshafi á annan dag jóla. Alls er 786 Svía nú saknað eftir hamfarirnar, en eftir endurskoðun á listanum fyrir viku síðan voru 893 einstaklingar á honum.

Upphaflega var óttast að allt að 3.500 Svía væri saknað eftir hamfarirnar, en talan hefur farið stöðugt lækkandi eftir því sem lögregla grennslast fyrir um nöfnin á listanum.

Um 20.000 Svíar voru á ferðalagi á þeim slóðum sem hamfarirnar riðu yfir, flestir í Taílandi.

Staðfest er að 52 Svíar létu lífið í hamförunum.

Frá því 7. janúar hefur sænsk lögregla fjarlægt 980 nöfn af listanum yfir fólk sem saknað er. Þann dag tók lögregla við málinu af sænska utanríkisráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert