Fannst á lífi 25 dögum eftir hamfarir í Asíu

Indverski sjóherinn bjargaði á föstudag manni sem lifði af hamfarirnar í Indlandshafi á annan dag jóla. Flóðbylgjan hreif manninn með sér og hafnaði hann á afskekktri smáeyju sem er að finna á Andaman og Nicobar eyjum. Maðurinn Michael Mangal hafði lifað á kókoshnetum þann tíma sem hann dvaldist á eyjunni.

Að sögn BBC er maðurinn þrekaður en aðeins lítillega meiddur. Að minnsta kosti 1.894 menn fórust af völdum jarðskjálfta og flóðbylgna á Andaman og Nicobar eyjum 26. desember. Meira en 5.500 manna er saknað eftir hamfarirnar.

Eyjan sem Mangal fannst á heitir Pillow Panja. „Hann var á nærfötunum og hafði notað föt sín til þess að búa til fána,“ sagði Salil Mehta í samtali við AFP-fréttastofuna.

Að minnsta kosti 160.000 manns fórust af völdum flóðbylgnanna í Indlandshafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert