SAS sendir Dönum, Svíum og Norðmönnum reikning fyrir að flytja fólk frá hamfarasvæðum

Farþegaflugvél frá SAS hefur sig til flugs.
Farþegaflugvél frá SAS hefur sig til flugs. AP

Skandínavíska flugfélagið SAS hefur sent reikning upp á 4 milljónir dala, sem samsvarar um 249 milljónum íslenskra króna, til ríkisstjórna Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Er um að ræða kostnað sem hlaust af ferðum SAS til Taílands sem þangað voru farnar til þess að flytja norræna borgara á brott þaðan eftir hamfarirnar í Indlandshafi á annan dag jóla.

SAS skipulagði 23 flugferðir með Norðurlandabúa en þær voru farnar á 10 dögum. Flogið var frá Bangkok og ýmist lent í Kaupmannahöfn, Ósló eða Stokkhólmi. Ferðirnar voru farnar á tímabilinu 26. desember til 4. janúar og flutti félagið alls um 3.600 manns, þar á meðal slasað fólk, frá hamfarasvæðunum á Taílandi.

Sjúkrarými voru útbúin í sumum vélanna og hlaust af því aukakostnaður sem er innifalinn í reikningi SAS.

SAS segir að um 400 starfsmenn fyrirtækisins hafi starfað við ferðirnar.

Ríkisstjórnirnar þrjár hafa ekki tjáð sig um málið enn sem komið er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert