Tala fórnarlamba flóðbylgjunnar komin yfir 280.000 manns

Indónesísk kona leitar horfinna eigna við Surien. Þar var friðsæl …
Indónesísk kona leitar horfinna eigna við Surien. Þar var friðsæl og falleg byggð tveggja hæða húsa sem skolaði öllum burt. ap

Fjöldi þeirra sem talinn er hafa farist af völdum flóðbylgjunnar miklu við Indlandshaf á annan í jólum steig í dag í rúmlega 280.000 manns, aðallega vegna nýrra upplýsinga sem birtar hafa verið um manntjón og fjölda saknaðra í Indónesíu. Í heild eru 228.429 Indónesar taldir hafa farist eða er saknað.

Í Tælandi er staðfest að 5.384 hafi farist og enn er 3.000 manns saknað, þar af rúmlega 1.000 útlendingar. Manntjónið á Sri Lanka varð næst mest en þar er staðfest manntjón 30.957 manns. Þá eru 5.637 manns saknað, en talið er að stór hluti þeirra kunni að vera látinn og meðal líka sem kennsl voru ekki borin á fyrir greftrun sem framkvæmd var með hraði.

Á Indlandi er manntjónið orðið 10.744 og 5.669 er saknað. Í Burma er af opinberri hálfu talið að 61 hafi farist en fulltrúar Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í landinu telja nær lagi að 90 hafi týnt lífi.

Þá fórust a.m.k. 82 á Maldiveseyjum og 26 er enn saknað þar. Þá er tala látinna í Malasíu komin í 68 en flestir þeirra fórust í Penang. Í Bangladesh fórust tveir og á austurströnd Afríku 298 manns í Sómalíu, 10 í Tansaníu og 1 í Kenýu.

Samtals er tala látinna af völdum hamfaranna annan í jólum því komin í 281.705.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert