Þrettán prósent barna í Banda Aceh þjáist af vannæringu

Fjögrra mánaða barn sefur úr hengirúmi í búðum í Indónesíu.
Fjögrra mánaða barn sefur úr hengirúmi í búðum í Indónesíu. AP

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, segir að nærri 13% barna í Banda Aceh, héraðshöfuðborg Aceh-héraðs á Súmötru í Indónesíu, þjáist af vannæringu sem dregur úr vexti og andlegum þroska og veikir ónæmiskerfið. Segja samtökin að bregðast verði án tafar við þessu og að ástandið kunni jafnvel að vera verra í héröðum utan við borgina.

Rúmur mánuður er frá því jarðskjálfti sem mældist 9 stig varð undan ströndum Súmötru og í kjölfarið kom flóðbylgja sem lagði Aceh-hérað nánast í rúst. UNICEF segir í nýrri skýrslu, að farsóttahætta sé enn í búðum, sem reistar voru fyrir þá sem misstu heimili sín. Þá sé dreifing hjálpargagna enn nokkuð tilviljunarkennd. Hins vegar fari ástandi í heild skánandi.

„Við vitum að ýmsum þörfum er ekki sinnt. En við höfum ekki lengur áhyggjur af því að fólk svelti. Verið er að opna skóla á ný. Það er merki um að ástandið er að batna," sagði Bo Asplund, fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Indónesíu.

Í einni skýrslu, sem gefin var út á vegum SÞ, segir að hreinlætisaðstæður séu hræðilegar í nokkrum búðum, sem komið hefur upp. Fólk þurfi að gera þarfir sínar á ökrum og í ár og tjarnir þar sem það baðar sig einnig. Asplund sagði, að þetta ætti við um nokkrar búðir í strandhéröðum en samt væri ástandið í heild að skána.

Í dag munu fulltrúar uppreisnarmanna og stjórnvanda bæði í Indónesíu og Sri Lanka eiga fundi sem miða að því að draga úr spennu á hamfarasvæðunum svo auðveldara verði að hjálpa þeim sem komust lífs af. Uppreisnarmenn í Aceh-héraði, sem vilja stofna sjálfstætt ríki, hafa barist þar við stjórnarhermenn í þrjá áratugi. Eftir hamfarirnar 26. desember var samið um vopnahlé en báðar hliðar hafa sakað hvor aðra um brot á þeim samningi. Fulltrúar uppreisnarmanna og stjórnvalda munu eiga viðræður í dag í Helsinki í Finnlandi í dag þar sem markmiðið er að semja um formlegt vopnahlé. Susilo Bambang Yudhoyono, forseti Indónesíu, hefur boðið uppreisnarmönnum sjálfsstjórn gegn því að þeir falli frá kröfum um sjálfstætt ríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert