Jóhannes Páll páfi II reyndi að sleppa hvítri friðardúfu út um glugga á íbúð sinni í Páfagarði í morgun og skemmti sér greinilega vel þegar dúfan flaug aftur inn um gluggann. Fjöldi barna fylgdist með þessari athöfn á Péturstorgi.
Tvö átta ára börn, drengur og stúlka, voru með páfa í glugganum. Hann ávarpaði börnin á torginu og hvatti þau til að muna eftir börnum á stríðssvæðum. Börnin tvö slepptu síðan hvort sinni dúfunni út um gluggann en fuglunum brá þegar þeir komu út í kuldann og flugu strax inn í hlýjuna aftur.
Páfi fór að hlæja og þegar aðstoðarmenn hans handsömuðu fuglana og settu þá á gluggasylluna á ný ýtti páfi öðrum fuglinum út um gluggann og klappaði drengnum á kollinn. En eftir að dúfan hafði flogið hring yfir Péturstorgi flaug hún enn á ný inn um gluggann.