Franskur dómstóll úrskurðar fórnarlömb flóðbylgjunnar látin

Maður ber í dag borð fyrir borð úr skipi sem …
Maður ber í dag borð fyrir borð úr skipi sem hafnaði á húsum uppi í Lampulo í Banda Aceh í Indónesíu í flóðbylgjunni miklu. ap

Franskir dómstólar hófust handa um það á föstudag að lýsa franska ferðamenn sem saknað hefur verið í kjölfar flóðbylgjunnar við Indlandshaf á annan dag jóla sem látna.

Leit í rúman mánuð að viðkomandi hefur engan árangur borið, að sögn embættismanna. Dómsúrskurður vegur jafn þungt og dánarvottorð útgefið af lækni.

Þannig voru 24 einstaklingar - sem voru í fríi í Tælandi yfir jól - úrskurðaðir látnir af dómstól í París á föstudag. Hefur dómstóllinn mál 10 einstaklinga til viðbótar til skoðunar og er búist við að þeir verði einnig dæmdir látnir í febrúar.

Niðurstaða dómstólsins gerir ættingjum viðkomandi kleift að taka út tryggingar, skipta eigum í samræmi við erfðaskrá, hafi hún verið gerð, og þar fram eftir götunum.

Fyrir utan dómsúrskurðinn hefur verið staðfest að 22 Frakkar fórust í flóðbylgjunni, 74 sem saknað er hafa verið taldir af en ekkert er vitað um afdrif um 50 til viðbótar, að sögn utanríkisráðuneytisins í París.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert