Fatahaugar hlaðast upp á strönd Banda Aceh

Mynd sem tekin var eftir flóðbylgjuna en birt í dag …
Mynd sem tekin var eftir flóðbylgjuna en birt í dag sýnir tvo menn hlaupa yfir brak í á við Banda Aceh. Ekki er vitað um afdrif mannanna. AP

Fréttamenn segja að miklir haugar af rennblautum fötum hafi myndast á ströndinni við Banda Aceh, héraðshöfuðborg Aceh-héraðs á Súmötru. Um er að ræða fatnað, sem fluttur hefur verið til svæðisins í tengslum við hjálparstarf vegna náttúruhamfaranna 26. desember. Þá eru einnig rifnir kassar með matvælum í fatahaugunum.

Fréttaritari APF fréttastofunnar, sem kom á svæðið í dag, segist hafa séð fjóra stóra hauga af pokum með fötum í á Calang ströndinni þar sem einna mesta skemmdir urðu í flóðbylgjunni. Sumir pokarnir hafi rifnað og fötin runnið út. Haugarnir minni helst á ruslahauga.

Yfir 230 þúsund manns létu lífið í náttúruhamförunum við Indlandshaf. Tala látinna á Súmötru hækkaði um 1000 manns í dag og er staðfest tala látinna þar nú 109.297. Tuga þúsunda er enn saknað á Súmötru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert