Hrina fjöldasjálfsmorða í Japan

Sjálfsmorðstíðni er hæst í Japan af iðnríkjum heims.
Sjálfsmorðstíðni er hæst í Japan af iðnríkjum heims. AP

Níu manns fundust látin í tveimur bílum utan við Tókýó í dag og er talið fólkið hafi ákveðið að fremja sjálfsmorð saman. Hafa nokkur slík mál komið upp að undanförnu í Japan en í öllum tilvikum hafa kolabrennarar verið notaðir. Sex manns, þrír karlar og þrjár konur á þrítugsaldri fundust í litlum sendibíl sem þau höfðu leigt á sveitavegi rétt utan við Tókýó. Nokkrum klukkustundum síðar fundust karlmaður og tvær konur í bíl sem einnig hafði verið leigður á öðrum stað um 100 km frá Tókýó. Nokkrir kolabrennarar fundust í báðum bílunum.

„Við fundum kolabrennara, svefnpillur og bréf í bílunum sem bendir til þess að þetta hafi verið sjálfsmorð,“ sagði talsmaður lögreglunnar og bætti við að mjög líklegt væri að þau hefðu framið fjöldasjálfsmorð.

Um 50 manns hafa látið lífið síðan í október eftir að nokkur mál hafa komið upp þar sem fólk fremur sjálfsmorð í hópum og notar til þess kolabrennara. Sundum virðist fólkið vera ókunnugt en einungis hafa talað saman á Netinu.

Sjálfsmorðstíðni er hæst í Japan af iðnríkjum heims en um 24 af hverjum 10.000 fremja sjálfsmorð þar í landi á ári hverju, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert