Lokið við að bera kennsl á lík útlendinga eftir hamfarir í Taílandi á næstu 4 mánuðum

Hreinsunarstörf á Phuket-eyju á Taílandi, skömmu eftir hamfarirnar.
Hreinsunarstörf á Phuket-eyju á Taílandi, skömmu eftir hamfarirnar. AP

Lokið verður við að bera kennsl á næstum öll lík þeirra útlendinga sem fórust í Taílandi þegar flóðbylgjur riðu yfir á annan dag jóla á næstu fjórum mánuðum, en taílensk lögregla skýrði frá þessu í dag. Hingað til hafa kennsl verið borin á um 300 lík og hafa þau verið afhent aðstandendum fórnarlambanna.

Taílenska innanríkisráðuneytið segir að 5.395 lík hafi fundist en að 2.993 einstaklinga sé saknað eftir hamfarirnar. Talið er að um 1.900 lík séu af Taílendingum og 1.953 lík af útlendingum. Óvíst er af hverjum 1.542 lík eru.

Sveitir erlendra réttarmeinafræðinga frá meira en 20 þjóðríkjum vinna við að rannsaka húðflúr, líkamsþyngd og safna DNA sýnum í því skyni að bera kennsl á lík útlendingana.

Nopadol Somboonsap, yfirmaður í taílensku lögreglunni, sagði að kennsl væru borin á 20 til 30 lík á dag. Sagðist hann búast við því að verkinu við að bera kennsl á líkin lyki á næstu „þremur til fjórum mánuðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert