Fækkað á lista yfir Svía sem saknað er eftir hamfarir í Asíu

Þjóðarsorg ríkti í Svíþjóð eftir hamfarirnar á annan dag jóla.
Þjóðarsorg ríkti í Svíþjóð eftir hamfarirnar á annan dag jóla. AP

Sænsk lögregla fækkaði í dag um 13 manns á lista yfir fólk sem saknað er eftir hamfarir í Asíu á annan dag jóla. Nú eru 552 einstaklingar á listanum, en nöfnin voru birt í fyrsta sinn fyrir viku síðan.

„Það er erfitt að segja til um hvort sú staðreynd að listinn var birtur hafi hjálpað til. Fjöldi þeirra sem saknað er hefur stöðugt farið minnkandi, það átti sér líka stað áður en listarnir voru birtir,“ sagði Johan Grenfors, ríkislögreglustjóri í Svíþjóð í yfirlýsingu.

Sænsk yfirvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að birta ekki nöfn fólks sem saknað er eftir hamfarirnar fyrr en nýlega.

Um 20.000 Svíar voru staddir í fríi í ríkjunum við Indlandshaf, þegar flóðbylgjur skullu þar á í kjölfar öflugs jarðskjálfta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert