Sænsku konungshjónin sýna Taílendingum þakklæti sitt

Svíakonungur í Bangkok í dag.
Svíakonungur í Bangkok í dag. AP

Karl Gústaf Svíakonungur og eiginkona hans, Silvía drottning, komu til Taílands í dag en þar munu þau ferðast um svæði sem urðu illa úti af völdum flóðbylgna á annan dag jóla og sýna Taílendingum þakklæti fyrir að aðstoða sænsk fórnarlömb hamfaranna.

Fyrir utan ríkin við Indlandshaf, er Svíþjóð það land sem missti flesta þegna sína í hamförunum 26. desember sl. 97 Svíar fórust í þeim og 460 manns er enn saknað, samkvæmt nýjustu tölum. Lík 5.395 fórnarlamba hamfaranna hafa fundist í Taílandi og 2.991 einstaklings er saknað.

Sænsku konungshjónin eru gestir Bhumibol Adulyadej, konungs Taílands, og Sirikit drottningar meðan þau dveljast í Taílandi. Í kvöld munu konungshjónin snæða saman.

Í yfirlýsingu sem sænska konungsdæmið sendi frá sér áður en Karl Gústaf og Silvía héldu til Taílands segir að hjónin hafi viljað „sýna með persónulegum hætti hversu þakklát þau eru Bhumibol konungi og allri taílensku þjóðinni, fyrir óeigingjörn viðbrögð sem sýnd voru þegar sænskum borgurum var hjálpað.“

Konungshjónin munu í dag fljúga til Phuket og ferðast þaðan um svæði í suðurhluta Taílands, en þar skall flóðbylgjan á. Munu þau kynna sér starf réttarmeinafræðinga sem vinna að því að bera kennsl á lík fórnarlamba og fylgjast með endurreisnarstarfi á flóðasvæðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert