Bill Clinton og Bush eldri skoða hamfarasvæði í Taílandi

Clinton og Bush skoða líkan af taílenskum fiskibáti í fiskiþorpinu …
Clinton og Bush skoða líkan af taílenskum fiskibáti í fiskiþorpinu Ban Nam Khem í Pang-nga héraði í Taílandi. AP

Bill Clinton og George Bush eldri, fyrrum Bandaríkjaforsetar, eru staddir í Taílandi en í dag munu þeir fara um svæði sem urðu illa úti af völdum flóðbylgna á annan dag jóla. Munu fyrrum forsetarnir alls ferðast til fjögurra landa á hamfarasvæðunum við Indlandshaf og leggja mat á þörf fyrir aðstoð, en nú eru sjö vikur eru liðnar frá hamförunum.

Hvíta húsið hefur beðið tvímenningana um að fara fyrir fjársöfnun til aðstoðar fórnarlömbum flóðbylgnanna.

Í dag heimsóttu Clinton og Bush meðal annars fiskiþorpið Ban Nam Khem. Þar hittu þeir 30 skólabörn sem misstu foreldra sína í hamförunum og fylgdust með endurbyggingu húss í þorpinu. Um 5.000 manns bjuggu í þorpinu fyrir hamfarirnar en talið er að allt að helmingur þorpsbúa hafi farist í þeim.

„Með því að koma hingað sjáum við hvað þarf að gera,“ sagði Clinton. „Ég held að það sé við hæfi að við lýsum þakklæti okkar“ í garð Taílendinga og ríkisstjórnarinnar fyrir viðbrögð þeirra við flóðbylgjunum,“ bætti hann við. Bush, sem er faðir George W. Bush, núverandi Bandaríkjaforseta, lofaði „dugnað taílensku þjóðarinar sem er ákveðin í að byggja sig upp að nýju.“

Á morgun munu Clinton og Bush skoða sig um í Aceh héraði í Indónesíu, sem varð verst úti í hamförunum. Þaðan munu þeir halda til Sri Lanka og Maldíveyja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert