Bush og Clinton komnir til Sri Lanka

Bush og Clinton í Aceh héraði í Indónesíu fyrr í …
Bush og Clinton í Aceh héraði í Indónesíu fyrr í dag. AP

Bill Clinton og George Bush eldri, fyrrum Bandaríkjaforsetar eru á ferð um hamfarasvæðið við Indlandshaf, þar sem miklar flóðbylgjur skullu á 26. desember sl. Þeir hafa þegar skoðað sig um í Taílandi og í Aceh héraði í Indónesíu, en í dag komu þeir til Sri Lanka. Þar fórust næstum 31.000 manns af völdum hamfaranna á annan dag jóla. Á Sri Lanka munu þeir eiga viðræður við Chandriku Kumaratunga, forseta landsins um hjálparaðgerðir í kjölfar flóðbylgnanna.

Á morgun munu fyrrum forsetarnir heimsækja bæinn Matara, sem er 160 kílómetra suður af Colombo, höfuðborg Sri Lanka. Þar munu þeir fylgjast með endurbyggingu húsa og kynna sér áætlanir um sálræna aðstoð til handa fólki sem lenti í hamförunum.

Hvíta húsið hefur beðið tvímenningana um að fara fyrir fjársöfnun til aðstoðar fórnarlömbum flóðbylgnanna.

Frá Sri Lanka munu þeir Bush og Clinton svo halda til Maldíveyja, en þar eru um 15.000 manns heimilislausir eftir hamfarirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert