Tveir látnir í eldsvoða í háhýsi á Taívan

Manni bjargað um borð í þyrlu af þaki Golden Plaza.
Manni bjargað um borð í þyrlu af þaki Golden Plaza. AP

Að minnsta kosti tveir eru látnir og margir eru innilokaðir í eldsvoða sem geisar í 25 hæða háhýsi í borginni Taichung á Taívan. Svo virðist sem eldurinn hafi komið upp á 18. hæð hússins og breiðst út á hæðirnar fyrir ofan. Ekki er vitað um upptökin. Þyrlur hafa bjargað allmörgum af þaki hússins.

Skemmtistaður, sem tekið getur allt að tvö þúsund manns, er á hæðinni þar sem eldurinn kom upp, en enginn var á staðnum er eldurinn kviknaði, sem var um klukkan fjögur síðdegis í dag að staðartíma, eða um áttaleytið í morgun að íslenskum tíma.

Í byggingunni, er nefnist Golden Plaza, eru auk skemmtistaðarins skrifstofur og kennslustofur. Fréttavefur breska ríkisútvarpsins hefur eftir nemanda sem var í húsinu að fjölmargir væru enn innilokaðir í kennslustofum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert