Svíi sem sat í Guantanamo-búðunum ræðir misþyrmingar í nýrri bók

Mehdi Ghezali, t.h., ásamt lögmanni sínum Peter Althin á blaðamannafundi …
Mehdi Ghezali, t.h., ásamt lögmanni sínum Peter Althin á blaðamannafundi í Svíþjóð í fyrra. AP

Sænskur ríkisborgari sem sleppt var úr búðum Bandaríkjahers í Guantanamo-flóa á Kúbu í júlí í fyrra, greinir í nýrri bók, frá misþyrmingum og niðurlægingu sem hann varð fyrir í búðunum. Bókin „Fangi í Guantanamo“ kom út í dag.

Hún byggist á viðtölum við manninn, Mehdi Ghezali, sem er 25 ára gamall. Sænskur blaðamaður, Gösta Hulten, skrifaði bókina. Í henni lýsir Ghezali misþyrmingum sem hann segist hafa orðið fyrir í búðunum. Segir Ghezali meðal annar frá því að hann hafi verið hafður í hlekkjum klukkustundum saman, honum hafi verið neitað um svefn og hann neyddur til að dveljast í mjög kaldri vistarveru í margar klukkustundir í senn.

Þá greinir hann frá því í bókinni að reynt hafi verið að niðurlægja hann kynferðislega meðan hann var fangi í búðunum.

Ghezali, sem er mjög trúaður, var handtekinn í desember árið 2001 í Pakistan í námunda við landamæri Afganistan. Hann var svo sendur til Guantanamo í janúar árið 2002. Hann segir að fangaverðir í búðunum hafi flett í gegnum eintak hans af Kóraninum í hvert sinn sem þeir yfirgáfu klefa hans. Þeir hafi svo hent bókinni í gólfið og leyft hundum að þefa af henni.

Í bókinni fullyrðir Ghezali einnig að sænska leyniþjónustan hafi haft hann undir ströngu eftirliti frá því honum var sleppt í júlí í fyrra, þrátt fyrir að Laila Freivalds, utanríkisráðherra, hafi lýst því yfir að hann væri frjáls maður.

Ghezali segist hafa haldið til Pakistan á sínum tíma til náms í íslömskum skóla, ekki til þess að taka þátt í hryðjuverkastarfsemi.

Lýsingar Ghezalis á aðstæðum í Guantanamo eru svipaðar og lýsingar sem aðrir fangar hafa sett fram. Bandaríska varnarmálaráðuneytið segist ekki hafa staðið að líkamlegum og andlegum pyntingum á föngum í búðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert