Jarðskjálfti upp á 8,2 á Richter ríður yfir Súmötru

Gríðarleg eyðilegging varð á Súmötru eftir mikinn jarðskjálfta og flóðbylgjur …
Gríðarleg eyðilegging varð á Súmötru eftir mikinn jarðskjálfta og flóðbylgjur á annan dag jóla í fyrra. AP

Jarðskjálfti sem mældist 8,2 stig á Richter reið yfir indónesísku eyjuna Súmötru Indlandshaf í dag. Viðvörun vegna hættu á flóðbylgju hefur verið gefin út vegna skjálftans að því er japanska fréttastofan Kyodo hefur skýrt frá. Bandaríska flóðbylgjumiðstöðin í Kyrrahafinu segir að skjálftinn geti hugsanlega valdið flóðbylgju sem hafa muni mikla eyðileggingu í för með sér.

Skjálftinn varði í um 2 til 3 mínútur. Í yfirlýsingu á vefsíðu miðstöðvarinnar segir að yfirvöld á svæðum í nágrenni skjálftans ættu að reikna með þessum möguleika og grípa strax til aðgerða.

Þá hefur Kyodo eftir veðurfræðingi í Singapore að skjálftinn hafi orðið í námunda við Súmötru og um miðnæturbil að staðartíma, eða um klukkan 16 í dag miðað við íslenskan tíma.

Mikil hræðsla greip um sig meðal íbúa Súmötru við skjálftann. Rafmagn fór víða af vegna hans, að sögn embættismanna.

Miðja skjálftans var í um 200 kílómetra fjarlægð frá meginlandinu.

Þrír mánuðir eru liðnir frá því að mjög harður jarðskjálfti og flóðbylgjur sem á eftir fylgdu urðum mörgum tugum þúsunda manna að bana í Indlandshafi.

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur eftir Russ Evans, jarðskjálftafræðingi hjá bresku jarðvísindastofnuninni að næstum öruggt sé að skjálftinn í dag, sé eftirskjálfti eftir skjálftann mikla í desember, en hann mældist um 9 á Richter. Evans segir mjög líklegt að skjálftinn muni valda flóðbylgjum, en þær verði smærri í sniðum en flóðbylgjurnar sem urðu í Indlandshafi á annan dag jóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert