Meira en 620 látnir eftir jarðskjálfta í Asíu; vonir um að finna fleiri á lífi dvína

Börn sem slösuðust í skjálftanum á eyjunni Nias, ásamt foreldrum …
Börn sem slösuðust í skjálftanum á eyjunni Nias, ásamt foreldrum sínum. AP

Sameinuðu þjóðirnar segja staðfest að meira en 620 manns séu látnir eftir öflugan jarðskjálfta sem varð í norðvesturhluta Indónesíu í þessari viku. 600 manns hafa látist af völdum skjálftans á eyjunni Nias, 15 létust á Simelue og 9 manns á meginlandi Súmötru og á Banyak-eyjum, að því er talskona þróunarhjálpar SÞ, UNDP, sagði í samtali við AFP-fréttastofuna. Leit að fólki í húsarústum stendur yfir, en vonir um að finna fólk á lífi fara minnkandi.

Susilo Bambang Yudhoyono, forseti Indónesíu, er væntanlegur til Nias í dag til þess að kynna sér skemmdir af völdum jarðskjálftans og ræða við björgunar- og hjálparstarfsmenn. Skjálftinn, sem reið yfir á mánudagskvöld, mældist 8,7 stig á Richter-kvarða.

Embættismenn hafa sagt að allt að 2.000 manns kunni að hafa farist af völdum skjálftans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert