Miklar og strangar siðareglur fylgja vali á nýjum páfa

Vörður lokar Bronshurðinni í Páfagarði fyrir nóttina en auk þess …
Vörður lokar Bronshurðinni í Páfagarði fyrir nóttina en auk þess sem hurðin er lokuð á nóttunni er hún lokuð frá því að páfi deyr og þar til annar páfi hefur verið valinn í hans stað. AP

Í kaþólskum sið er litið svo á að páfi sé beinn arftaki Péturs postula sem leiðtogi kristinna manna hér á jörð. Miklar og strangar siðareglur fylgja vali á nýjum páfa en þeim er m.a. ætlað að tryggja það að ekki komi upp klofningur innan kaþólsku kirkjunnar.

Tveimur vikum eftir andlát páfa munu kardínálar Páfagarðs loka sig inni í herbergi í Sixtínsku kapellunni til að velja 262 páfa sögunnar en tæplega 120 kardinálar eru gjaldgengir til embættisins.

Kardinálarnir munu kjósa á milli þeirra eftir miklum kúnstarinnar reglum þar til þeir hafa komist að niðurstöðu. Þeir geta kosið allt að fjórum sinnum á dag í leynilegum kosningum en takist þeim ekki að komast að niðurstöðu á fyrstu þremur dögunum taka þeir sér einn dag til bæna. Síðan munu þeir kjósa sjö sinnum áður en þeir taka sér annan bænadag.

Stefnt er að því að páfi sé kosinn með tveimur þriðju hlutum atkvæða en takist það ekki á tólf dögum geta kardinálarnir kosið páfa með hreinum meirihluta.

Kardinálarnir eru lokaðir inni á meðan á þessu ferli stendur og eru dyr og gluggar innsiglaðir. Þá verða bæði þeir og allir þeir sem þjóna þeim á þessum tíma að sverja þagnareið en rof á honum varðar útskúfun úr samfélagi kristinna manna.

Kjörseðlarnir eru brenndir í gömlu eldstæði eftir hverja talningu og er reykurinn, sem stígur upp um reykháfinn, eina vísbendingin sem umheimurinn hefur um gang mála. Þá er hefð fyrir því að strá séu brennd með miðunum á meðan óvíst er hver útkoman verður en stráin gera reykinn svartan. Þegar niðurstaða liggur fyrir eru miðarnir hins vegar brenndir án stráanna og þannig flytur ljós reykurinn umheiminum fyrstu fréttirnar af því að vali á nýjum páfa sé lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert