Bretadrottning rýfur þing og boðar kosninga 5. maí

Blair gengur til fundar við blaðamenn við bústað hans í …
Blair gengur til fundar við blaðamenn við bústað hans í Downingstræti í dag. ap

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, gekk fyrir stundu á fund Elísabetar Englandsdrottningar og bað hana um að leysa upp þingið og boða til þingkosninga í landinu 5. maí næstkomandi.

Þrátt fyrir að breskir kjósendur séu margir ósáttir við þátttöku Bretlands í Íraksstríðinu benda skoðanakannanir til þess að Verkamannaflokkur Blairs muni sigra og sitja við stjórnartaumana þriðja kjörtímabilið í röð. Blair hefur verið forsætisráðherra síðan 1997.

Blair sagði eftir fund sinn með drottningu að helsta markmið sitt á þriðja kjörtímabilinu yrði að festa í sessi efnahagslegan stöðguleika og fjárfestingar í opinberri þjónustu. „Það er mikið í húfi. Breskur almenningur er í húsbóndasæti og á hið mikla val,“ sagði Blair.

Þinglausnir fara fram á mánudaginn kemur og nýtt þing kemur saman 11. maí til að kjósa forseta. Elísabet drottning mun svo setja það formlega þriðjudaginn 17. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert