Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, heldur á sunnudag til Bandaríkjanna, en þar mun hann eiga viðræður við George W. Bush, Bandaríkjaforseta. Mun Sharon treysta því að Bandaríkin muni ekki ræða á fundinum um ágreining sem kann að skapast, stækki Ísraelar landtökubyggðir sínar á Vesturbakkanum. Bush ítrekaði í dag þá afstöðu sína að Ísraelar verði að hætta öllum framkvæmdum á svæðum Palestínumanna.
Nú eru aðeins fjórir mánuðir í að áætlun Sharons um brotthvarf gyðinga frá Gaza verði hrint í framkvæmd og búist er við að Bush muni forðast að ræða mál sem gætu orðið til þess að stefna því máli í tvísýnu.
Á þriðjudag í síðustu viku sagði Bush hins vegar að „engin stækkun“ á gyðingabyggðum á Vesturbakkanum ætti að eiga sér stað. Ísraelar hafa tilkynnt að þeir áformi að byggja 3.500 heimili í Maaleh Adumim, fjölmennustu byggð gyðinga á Vesturbakkanum.
Forsetinn ítrekaði í dag fyrri ummæli sín, á leið til Bandaríkjanna frá Róm, þar sem hann var viðstaddur útför páfa. Sagði Bush að hann myndi segja Sharon að hann yrði að hætta við framkvæmdir í byggðum gyðinga á svæðum Palestínumanna.