Íhaldssamur kardináli sem fordæmir samkynhneigð og rokktónlist

Benedikt XVI páfi á svölum Péturskirkjunnar í dag.
Benedikt XVI páfi á svölum Péturskirkjunnar í dag. mbl.is

Þýski kardínálinn Joseph Ratzinger, sem kjörinn var páfi í dag, var trúnaðarvinur Jóhannesar Páls páfa II, og íhaldssamur eins og hann. Ratzinger, sem nú hefur tekið upp nafnið Benedikt sextándi, er talinn munu fylgja hinni íhaldssömu stefnu sem kaþólska kirkjan boðaði undir stjórn Jóhannesar Páls páfa.

Hann hefur kvartað undan „græðgi“ og „einstaklingshyggju“ innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar og hafnar öllum hugmyndum um nútímavæðingu hennar. Hann hefur gagnrýnt harðlega þá sem vilja að kaþólska kirkjan boði frjálslyndari stefnu, sagði meðal annars í predikun á árinu: „Guð, kirkja þín virðist oft vera bátur sem er um það bil að sökkva, bátur sem lekur á mörgum stöðum.“

Hin mikla andstaða Ratzingers við því að kirkjan verði nútímavædd hefur gert hann að svörnum óvini frjálslyndari manna innan kirkjunnar. Hann hafnar því að konur fái að verða prestar, og að prestar fái að gifta sig auk þess sem hann fordæmir samkynhneigð. Hann hefur einnig fordæmt rokktónlist og segir hana „tjáningu hinna óæðri hvata“.

Þá er Ratzinger andsnúinn því að Tyrkir fái inngöngu í Evrópusambandið og segir það „gríðarleg mistök“ ef land sem að mestu er byggt múslimum gangi í sambandið. Hann segist einnig andsnúinn kommúnisma, og segir slíkar stjórnir hafa verið smán okkar tíma.

Hann vill að stefna kirkjunnar verði í takt við íhaldssömustu hópana innan hennar og að það eigi að gera til að bregðast við fækkun fólks í kaþólsku kirkjunni í Evrópu.

Kjörinn í fjórðu atkvæðagreiðslu

Ratzinger hóf hið leynilega páfakjör í gær, en kardinálarnir kusu hann í fjórðu atkvæðagreiðslu, sem telst lítið og þýðir að honum hefur greinilega tekist að koma í veg fyrir tilraunir hófsamari og frjálslyndari kardinála til að útiloka hann.

Þjóðerni hans, aldur og íhaldssamar skoðanir voru allt taldir þættir sem gætu hamlað því að hann yrði páfi. Hann er fæddur 1927 í bænum Marktl am Inn í Bæjaralandi í Þýskalandi. Hann varð prestur 1951 og erkibiskup í Munchen í mars 1977. Fjórum mánuðum síðar gerði Páll VI páfi hann að kardinála.

Joseph Ratzinger, efst til hægri, ásamt Georg bróður sínum, Mariu …
Joseph Ratzinger, efst til hægri, ásamt Georg bróður sínum, Mariu systur sinni og Josef og Mariu foreldrum sínum árið 1951. AP
Bræðurnir Joseph og Georg Ratzinger árið 2001.
Bræðurnir Joseph og Georg Ratzinger árið 2001. AP
Joseph Ratzinger í München árið 1982.
Joseph Ratzinger í München árið 1982. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka