Sergei Martynov, utanríkisráðherra Hvíta-Rússlands, sagði í dag að framtíð landsins yrði ákveðin af þjóðinni en ekki af utanríkisráðherra Bandaríkjanna en Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna , sagði í gær að Hvíta-Rússland væri „síðasta sanna einræðisríkið" í Mið-Evrópu og hvatti til stjórnarfarbreytinga þar. þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, tók í sama streng og Mertynov í dag og sagði að ekki væri hægt að þvinga umbótum upp á þjóðir. Þá sagði hann að Rússar gætu ekki tekið þátt í tilraunum til slíks.
Rice sagðist á blaðamannafundi í Vilinius í Litháen í gær telja að það væri kominn tími til breytinga í Hvíta-Rússlandi og að hún teldi það hafa orðið fyrrum lýðræðum Sóvétríkjanna til góðs að varpa af sér oki harðræðisins.
Utanríkisráðherrarnir eru allir staddir á óformlegum fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbanadalagsins (NATO) í Vilinius.