Páfagarður hvetur spænska embættismenn til að neita að gifta samkynhneigða

Mikil fagnaðarlæti brutust út við þinghúsið í Madrid í gær …
Mikil fagnaðarlæti brutust út við þinghúsið í Madrid í gær þegar neðri deild þingsins samþykkti að leyfa hjónaband samkynhneigðra. AP

Páfagarður réðst harkalega gegn spænsku ríkisstjórninni í dag vegna frumvarps um að samkynhneigðir fái að gifta sig og ættleiða börn. Sagði talsmaður páfagarðs að embættismenn ættu að neita að fara eftir svo „vondum“ lögum.

Stjórnvöld í Madrid höfnuðu öllum kærum vegna frumvarpsins, en málið telst eitt fyrsta stóra verkefni nýkjörins páfa, Benedikts sextánda. Neðri deild spænska þingsins samþykkti frumvarpið í gær.

Gagnrýnin kom frá Alfonso Lopez Trujillo, kardinála og formanns fjölskylduráðs Páfagarðs í viðtali í dagblaðinu Corriere della Sera. „Við getum ekki þvingað svona ranglæti upp á fólk,“ sagði hann. Sagði hann að embættismenn sem beðnir yrðu um að gefa samkynhneigða í hjónaband ættu að neita, jafnvel þótt þeir kynnu að missa starfið.

Maria Teresa Fernandez de la Vega, aðstoðarforsætisráðherra Spánar, svaraði honum og sagði á blaðamannafundi í dag að embættismenn „yrðu að framfylgja lögum sem ríkisstjórnin legði fram og þingið samþykkti.“

„Engin af ákvörðunum ríkisstjórnarinnar, þar á meðal, rýmri reglur um hjónaband og hjónaskilnað, minnkar réttindi neins,“ bætti hún við. „Fólk getur stofnað fjölskyldu eins og kirkjan mælir með ef það vill, eða í samræmi við borgaraleg lög ef það vill.“

Muni öldungadeild þingsins samþykkja frumvarpið, en búist er við að svo verði, munu lögin taka gildi á næstu mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert