Evrópskir jafnaðarmenn segja að stjórnarskrá ESB sé ekki dautt plagg

Poul Nyrup Rasmussen, talsmaður jafnaðarmanna í Evrópuþinginu, sagði að það væri sorglegt að Frakkar skyldu hafa hafnað stjórnarskrá Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu en fullyrti jafnframt, að úrslitin þýddu ekki að stjórnarskráin væri dautt plagg.

„En orðrómur um að stjórnarskráin sé dautt plagg er ekki réttur. Það er ekki hægt að túlka „nei" Frakka sem „nei" við Evrópu. Þetta er ekki síðasta orðið um stjórnarskrá Evrópu. Frakkar vildu hafna þreyttri og óvinsælli ríkisstjórn sem er ekki fulltrúi hins venjulega Frakka," sagði Rasmussen.

Traian Basescu, forseti Rúmeníu, sagði að niðurstaðan þýddi ekki endalok Evrópusamstarfsins en Rúmenía gerir sér vonir um að fá aðild að sambandinu árið 2007.

Romano Prodi, fyrrum forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði að niðurstaðan í Frakklandi væri mikil vonbrigði en Evrópa yrði að hlusta á ákall franskra kjósenda. Prodi er nú leiðtogi stjórnarandstöðunnar á Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert