Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, segir að andstaða Frakka við stjórnarskrá Evrópusambandsins (ESB) verði til þess að slá öllum aðildarumræðum í Noregi á frest.
Bondevik hefur löngum verið í hópi andstæðinga aðildar Norðmanna að ESB en hefur þó þótt sýna merki eftirgjafar í þeim efnum undanfarið. Hann segir að úrslitin í Frakklandi í gærkvöldi muni verða til þess að fresta nýju þjóðaratkvæði um ESB-aðild í Noregi.
Bondevik hafði gengið út frá því að til slíkrar atkvæðagreiðslu kæmi árið 2009 en telur nú að það dragist lengur.
„Það mun nokkur tími líða þar til við sjáum hvert ESB stefnir eftir þessi úrslit. Engum [stjórnmálamanni] mun í bráð liggja á að biðja norsku þjóðina að taka afstöðu til sambands sem nú er óvissa um,“ sagði Bondevik í morgun.
Aslaug Haga, formaður Miðflokksins sem verið hefur andvígur aðild Norðmanna að ESB, segir úrslitin í Frakklandi „gríðarlegur innblástur“ andstæðingum ESB-aðildar. „Kjörið sýnir mikla andstöðu fólks við þá þróun sem er að eiga sér stað innan ESB,“ sagði Haga.
Þessu eru bæði Jens Stoltenberg, formaður Verkamannaflokksins, og Thorbjørn Jagland, helsti talsmaður flokksins í Evrópumálum, ósammála. Þeir segja þjóðaratkvæðið í Frakklandi tákni ekki þverrandi stuðning við ESB.
„Það er gríðarlegur stuðningur við ESB í Frakklandi og það jafnvel þótt meirihluti kjósenda hafi sagt nei við stjórnarskránni,“ segir Stoltenberg. Hann telur ekki að úrslitin skaði ESB heldur sýni einungis að lýðræði getur verið virkt.
Jagland, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður utanríkisnefndar norska þingsins, segir einnig að nei við stjórnarskrá ESB jafngildi ekki nei-i við sambandinu sjálfu.
„Evrópusambandið hefur staðið frammi fyrir margri kreppunni og komist gegnum þær allar. Ég held sambandið muni ráða fram úr þessari líka,“ segir Jagland sem barist hefur um árabil fyrir því að Norðmenn sæki um aðild að ESB.