Bandaríska tímaritið Vainty Fair segir frá því í dag að Mark Felt, fyrrum embættismaður hjá bandarísku alríkislögreglunni FBI segist vera hin svonefndi „Deep Throat", heimildarmaður bandarísku blaðamannanna Bob Woodward og Carl Bernstein sem áttu einna stærstan þátt í að fletta ofan af Watergatehneykslinu svonefnda.
„Ég er sá sem þeir kölluðu Deep Throat," segir Felt, sem nú er 91 árs, við Vanity Fair.
Watergatemálið varð til þess að Richard Nixon neyddist til að segja af sér embætti forseta Bandaríkjanna árið 1974. Þeir Woodward og Bernstein, sem störfuðu á þessum tíma sem blaðamenn hjá Washington Post hafa aldrei viljað upplýsa hver umræddur heimildarmaður var. Woodward, sem nú er einn af ritstjórum Washington Post, hefur sagt að það verði ekki upplýst fyrr en viðkomandi maður er látinn.
Í yfirlýsingu, sem Woodward sendi frá sér í dag, segist hann vita af greininni í Vanity Fair en enginn þeirra þriggja blaðamanna, sem viti hver „Deep Throat", sé, þ.e. hann sjálfur, Bernstein og Ben Bradley fyrrum ritstjóri <7I>Washington Post, muni tjá sig um hvort greinin sé rétt eða ekki.
„Við höfum haldið okkar striki í þrjátíu ár. Og í þrjátíu ár höfum við ekki sagt neitt. Það breytist ekki í dag," sagði Woodward í yfirlýsingunni.
Vanity Fair segir að Felt hafi viðurkennt fyrir fjölskyldu sinni að hann hafi verið umræddur heimildarmaður og hann hafi átt samvinnu við tímaritið um samningu greinarinnar.
Fjölskylda Felts vissi ekki um þátt hans í Watergatemálinu fyrr en árið 2002 þegar Yvette La Garde, náinn vinur Felts, sagði Joan dóttir hans að hann hefði sagt sér frá þessu í trúnaði.
Í grein Vanity Fair segir að Joan hafi í kjölfarið spurt föður sinn sem í fyrstu neitaði en þegar hún sagði honum frá upplýsingum La Garde hafi hann svarað: „Fyrst svo er komið, þá var það ég."